top of page

Mangó ís

Ég prufaði þennan ís í fyrsta sinn fyrir nokkrum dögum og er nánast búin að búa hann til daglega síðan! Fullkomið millimál þegar mann langar í eitthvað gott en næringarríkt, eða sætt eftir mat. Einstaklega macros vænn.

Innihald fyrir einn:

130 gr frosið mangó

25 gr próteinduft sítrónu*

1 mtsk lime safi (má sleppa)


*Þú getur í raun notað hvaða bragð af próteindufti sem er, vanillu eða annað milt bragð. Byrjaðu á að taka mangóið út úr frystinum og láttu það bíða í um 10 mínútur svo það sé rétt aðeins farið að þiðna. Því næst setur þú öll innihaldsefnin í matvinnsluvél eða í blandara og blandar saman. Þú gætir þurft að stoppa og skafa úr hliðunum á matvinnsluvélinni og láta hana ganga í 2-3 mínútur, blandan breytist í ís á nokkrum mínútum.

Ef ég geri þetta fyrir krakkana mína þá sleppi ég próteinduftinu en set þá annað hvort bara frosið mangó eða blanda smá skyri líka samanvið, til dæmis 130 gr mangó og 50 gr skyr.


Ef þú vilt minnka kolvetnin í ísnum er líka sniðugt að frysta kúrbít í bitum og nota hann til jafns við mangóið. Til dæmis 65 gr frosið mangó, 65 gr frosinn kúrbítur, 25 gr próteinduft og 1 mtsk lime safi. Þessi blanda er alls ekki síðri. Svo má að sjálfsögðu skipta mangóinu út og nota hvaða frosnu ávexti sem er.


Næring í einni skál af ís:

Kolvetni: 23 gr

Prótein: 20 gr

Fita: 1,6 gr

Trefjar: 2,3 gr


Þessi skál er ekki skráð inn í myfitnesspal þar sem það er svo misjafnt hverju sinni hvaða próteinduft fólk er að nota. Hlutföllin eru heldur ekki heilög, þú getur sett eins mikið mangó og passar inn hjá þér hverju sinni.


Smelltu hér til þess að sjá TikTok myndband af því hvernig ég bjó ísinn til.


Endilega láttu mig vita ef þú prufar þessa uppskrift með því að tagga mig á instagram @helgamagga

Commenti


bottom of page