top of page

Kalkúnabollur

Þessar kalkúnabollur eru komnar á uppáhaldslistann hjá manninum mínum. Ekta sunnudags gúrm, næringarríkar og stútfullar af próteini.

Þessi uppskrift er gerð í samstarfi við MS - Gott í matinn.

Innihald:

-150 gr spergilkál

-600 gr kalkúnahakk

-2 stk brauðsneiðar / 70 gr

-100 gr eggjahvítur

-100 gr rifinn ostur

-100 gr kotasæla

-1 tsk salt

-1 tsk pipar

Ég kaupi kalkúnahakk frosið, þetta er bæði ódýr matur en góður og næringarríkur.

Byrjið á að gufusjóða spergilkál í 10 - 15 mín. Ég byrja oft á þessu og læt spergilkálið kólna aðeins en það má líka fara beint í skálina heitt. Ekki sleppa spergilkálinu í uppskriftinni, ég lofa það finnst ekkert bragð af því, það verður ljóst og þegar sósa er komin á bollurnar sjá börnin þín það heldur ekki. Það má mauka það í matvinnsluvél eða skera það niður mjög fínt.


Ristið tvær brauðsneiðar frekar mikið, 2-3 sinnum og mauka þær svo í blandara svo þær verði að brauðmylsnu. Því næst er öllu hrært saman í hrærivél (eða höndunum) og litlar bollur mótaðar. Ég nota ½ dl mál eða annað álíka til að móta bollurnar og hafa þær jafn stórar, annars skiptir stærðin ekki öllu.


Bollurnar eru settar á bökunarplötu og hitaðar við 190 gráður í 25 mínútur.

Með þessu hef ég kartöflur, brúna sósu og ferskt salat. Ég geri yfirleitt brúna sósu úr pakka og bragðbæti hana með salti og pipar og smá kjötkrafti í stað þess að gera sósu frá grunni úr rjóma.

Næring í 100 gr: Kolvetni: 4,7 gr Prótein: 21,8 gr Fita: 5,6 gr Trefjar: 0,9 gr Þú finnur þessa skráningu í Myfitnesspal appinu með því að leita að: Helga Magga eða kalkúnabollur.


Smelltu hér til þess að sjá TikTok myndband af því hvernig ég bjó bollurnar til.

Endilega láttu mig vita ef þú prufar þessa uppskrift með því að tagga mig á instagram @helgamagga

bottom of page