top of page

Grísk píta með grillosti

  • Writer: Helga Gunnarsdottir
    Helga Gunnarsdottir
  • Jul 15, 2025
  • 2 min read

Einstaklega sumarlegur og ferskur réttur sem ég mæli með að þú prófir. Brauðið sem ég er að nota eru próteinpizzubotnar sem passa einstaklega vel í þennan rétt. Brauðið er einnig hægt að nota sem pítubrauð og setja innihaldið inn í brauðið, en þá má sleppa því að stinga göt í brauðið með gaffli fyrir bökun.


Á brauðið er sett grísk hvítlaukssósa, grillaður grill ostur ásamt granateplafræjum og ferskri myntu.


Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við MS - Gott í matinn.

Innihald í 4 brauð:

5 g lyftiduft

140 g hveiti

230 g skyr


2 grill- og pönnuostar frá MS

3 - 4 msk hunang

1 - 2 tsk chilli krydd


sósan

½ gúrka rifin með rifjárni

1 dós sýrður rjómi 10%

1 msk ólífuolía

sítrónusafi úr ½ sítrónu

1 hvítlauksrif eða eftir smekk

fersk steinselja (má sleppa)


granateplafræ

fersk mynta


Þú byrjar á því að búa til brauðin/pizzubotnana. Lyftiduftið, hveitið og skyrið sett saman í skál og hnoðað saman, deiginu skipt í 4 parta, flatt út í 4 hringlaga brauð og sett á bökunarpappír.

Það er gott að stinga nokkur göt með gaffli í hvern botn fyrir bökun svo þeir blási ekki út. Bakað við 180 gráður í 11-13 mínútur í blástursofni.


Næst eru grillostarnir skornir niður í um 1 cm þykkar sneiðar, hunang sett yfir þá ásamt chilli kryddi. Þetta látið bíða á meðan sósan er útbúin.


Gúrkan rifin niður og mesta vatnið kreist úr henni, rifna gúrkan sett í skál ásamt sýrðum rjóma og restinni af innihaldsefnunum. Sósan er svo krydduð með salti og pipar.


Grillosturinn er grillaður, í um 3-4 mínútur á hvorri hlið. Það er sniðugt að skera kartöflu í tvennt og renna henni eftir grillinu áður en osturinn er settur á, þá festist osturinn síður á grillinu.


Brauðið er sett á disk, sósan sett á og grillostinum svo raðað þar ofan á, 3 - 4 sneiðar eða eftir smekk. Skreytt með granateplafræjum og ferskri myntu.


Smelltu hér til þess að sjá TikTok myndband af því hvernig ég bjó réttinn til.


Endilega láttu mig vita ef þú prufar þessa uppskrift með því að tagga mig á instagram @helgamagga



 
 
 

Comments


bottom of page