Þessi uppskrift er alveg dásamlega góð og næringarrík. Fljótlegur matur fyrir utan biðtímann í ofninum en það má nú gera ýmislegt á meðan.
Þessi uppskrift er gerð í samstarfi við Coka cola, en coke zero passar einstaklega vel með þessum rétti.
Innihald fyrir tvo: 2 sætar kartöflur 2 kjúklingabringur 80 - 100 g rifinn ostur
100 g kotasæla maukuð
Barbeque sósa
Krydd: salt, pipar, chilli, hvítlaukskrydd
Magnið á mann af þessum rétti er ansi misjafnt og fer svolítið eftir stærð kartöflunnar, ef þú ert með litlar kartölfur er alveg óhætt að gera ráð fyrir einni á mann en ef þú ert með stórar gæti helmingur dugað fyrir tvo, en þá er líka hægt að setja meiri kjúkling ofan á hvern kartöfluhelming ef hún er lengri.
Þessi eldunaraðferð á kjúklingabringunum finnst mér algjör snilld, að pakka þeim inn í bökunarpappír og þurfa ekki að standa yfir pönnunni að steikja kjúklinginn sparar manni tíma. Mér finnst gott að skera bringurnar í tvennt en ég geri það bara til að gulltryggja að kjúklingurinn sé eldaður í gegn. Þú kryddar bringurnar og setur smá af bbq sósu yfir bringurnar, um hálfur dl, pakkar þeim svo inn í bökunarpappír eins og pakka og hitar í ofni við 200 gráður í 30 mínútur. Sætu kartöflurnar eru hitaðar á sama tíma í ofninum, en þær þurfa yfirleitt aðeins lengri tíma 40/50 mínútur, gott að prófa að stinga hníf í þær, þú finnur ef hann rennur ekki vel í gegn þarf að baka kartöfluna aðeins lengur.
Kartöflurnar eru svo skornar í tvennt og það mesta tekið upp úr þeim. Blandað saman við maukaða kotasælu og kryddað með kryddunum sem ég tel upp hér að ofan, ca. 1 tsk af hverju kryddi.
Kjúklingurinn er skorinn niður og settur ofan á kartöflurnar ásamt rifnum osti. Þetta er svo hitað aftur í ofninum þar til osturinn hefur bráðnað í um 10 mínútur. Á þeim tíma er sniðugt að græja salat. Gott að toppa kartöfluna með meiri bbq sósu og niðurskornum vorlauk.
Dæmi um næringu í hálfri kartöflu (300 g kartafla, 40 g bbq sósa, rifinn ostur 20 g, kotasæla 40 g, kjúklingabringa 90 g) Kolvetni: 75 g Prótein: 38 g Fita: 7.5 g Trefjar: 9 g Þessi skráning er ekki í myfitnesspal þar sem stærð kartöflunnar er misjöfn. Fyrir ykkur sem eruð að telja macros þá er þetta mjög einfaldur matur í skráningu, þú getur valið sæta kartöflu sem hentar í stærð, fínt að miða við kjúklingabringu á mann og þú getur þá vigtað þína fyrirfram og jafnvel pakkað henni sér inn. Þú getur svo stjórnað magninu af kotasælunni sem þú blandar út í þína kartöflu, sem og magninu á ostinum ofaná.
Endilega láttu mig vita ef þú prufar þessa uppskrift með því að tagga mig á instagram @helgamagga
Comments