Fiski taco
- Helga Gunnarsdottir
- 2 hours ago
- 2 min read
Ég er stöðugt að leita leiða til að gera fisk meira spennandi á mínu heimili. Allt sem er taco er svo vinsælt og því ekki að sameina þetta tvennt? Þessi réttur fór fram úr mínum væntingum, svo einfalt, fljótlegt og gott. Ekki skemmir hvað próteininnihaldið er gott, enda fiskur algjör próteinbomba eins og allir vita. Ég kaupi yfirleitt um 7-800 g af fiski fyrir mína fjölskyldu en hefði vel getað verið með 1 kg þarna svo vinsæll var þessi réttur.
Þessi uppskrift er gerð í samstarfi við Hagkaup, þar sem þú færð allt í þennan rétt.

Innihald:
Ýsa magn eftir þinni fjölskyldu
litlar tortillu kökur frá El taco truck eða Santa maria 3-4 stk á mann
taco krydd frá El taco truck
2 límónur
rauðkálshaus lítill
1 dl grísk jógúrt
paprika
blaðlaukur
1 - 2 msk olía á fiskinn
salt og pipar
Chilli mayo frá El taco truck
Mango mayo frá El taco truck
sprettur frá Vaxa sem skraut (má sleppa)
kóríander og ferskt chillí (má sleppa)
Þú byrjar á því að skera fiskinn í bita og raða á ofnplötu, setur smá olíu á fiskinn og kryddar með taco kryddinu, ég notaði um hálfan poka. Fiskurinn er eldaður við 185 gráður í 20 mínútur.
Á meðan fiskurinn er í ofninum er hrásalatið útbúið, rauðkálið er skorið örþunnt niður, helst með mandolíni en einnig virkar að nota grænmetisflysjara eða jafnvel ostaskera. Tekur bara örlítið lengri tíma en með mandolíninu. Blaðlaukurinn og paprikan einnig skorið þunnt niður. Safi af einni límónu kreistur yfir. Grískri jógúrt svo blandað saman við og öllu hrært saman. Magnið af grísku er smá smekksatriði, ég byrjaði á að setja 5 msk en bætti svo 2 msk við.
Gott að hita vefjurnar örlítið og þegar fiskurinn er tilbúinn er hrásalatið sett inn í vefjurnar og svo fiskur ofan á. Gott að hafa ferskan chilli fyrir þá hörðustu og jafnvel kóríander. Spretturnar frá Vaxa setja skemmtilegan blæ á allan mat og svo er ómissandi að toppa með chilli eða mango mayo sósunum frá El taco truck. En einnig mætti nota salsa sósu.
Smelltu hér til þess að sjá TikTok myndband af því hvernig ég bjó réttinn til.
Endilega láttu mig vita ef þú prufar þessa uppskrift með því að tagga mig á instagram @helgamagga





Comments