Þetta bestu beyglur í heimi, eins og margir vita sem skoða uppskriftirnar mínar. Próteinríkar, ótrúlega mjúkar og góðar og ekki verra hvað þær eru einfaldar með aðeins þremur innihaldsefnum, hreinu Ísey skyri, hveiti og lyftidufti. Það er líka hægt að nota gríska jógúrt í beyglurnar í staðinn fyrir skyrið en þá hækkar fitumagnið.
Ég elska kotasælu og reyni yfirleitt að setja hana í alla rétti. Í þessari uppskrift mauka ég hana í matvinnsluvél ásamt kryddi. Hún verður silkimjúk eins og rjómaostur og því sniðugur kostur fyrir þá sem geta ekki borðað kotasælu vegna áferðarinnar á henni. Það er líka gott að nota kotasælublönduna á hrökkbrauð, sem ídýfu fyrir niðurskorið grænmeti eða hvað sem er.
Uppskriftin af kotasælublöndunni er stór en það er sniðugt að nota dósina af kotasælunni til að geyma afganginn í og nota næstu daga. Blandan geymist eins og kotasæla, dagsetningin er á dósinni.
Þessi uppskrift er gerð í samstarfi við MS - Gott í matinn.
Uppskrift af 4 beyglum
(ég mæli með því að gera tvöfalda, þessar klárast fljótt!):
230 gr hreint Ísey skyr (einn bolli)
140 gr hveiti (einn bolli)
10 gr lyftiduft (2 tsk)
Eggjahvíta eða egg til penslunar /15 gr
Kotasælublandan:
500 gr kotasæla
1 tsk salt
1 tsk pipar
1 tsk hvítlaukskrydd eða 1 hvítlauksgeiri.
Beyglur: Öllu hrært saman í höndum eða hrærivél, ef deigið er mjög klístrað er gott að bæta örlitlu hveiti við. Skiptið deiginu í fjóra parta og myndið beyglur, það er gott að hafa gatið í miðjunni 3-4cm því það minnkar mikið við bökun. Setjið beyglurnar á bökunarpappír svo þær festist ekki við bökunarplötuna. Penslið með eggjahvítu eða eggi.
Ég á yfirleitt alltaf til eggjahvítur á brúsa svo það er tilvalið að nota þær því það fara einungis um 15gr af eggjahvítu á 4 beyglur.
Ég notaði beyglukrydd sem ég hef keypt í Hagkaup og Bónus en það er líka hægt að nota sesamfræ og smá sjávarsalt.
Bakið við 175gr í um 25 mín í blástursofni. Gott að láta beyglurnar standa á borði í um 5 mínútur áður en þær eru skornar.
Á meðan beyglurnar eru að bakast eru 500 gr af kotasælu sett í matvinnsluvél ásamt salti, pipar og hvítlauksdufti eða hvítlauksgeira. Blandið þar til silkimjúkt.
Næring í 100 gr af beyglu:
Kolvetni: 34,3 gr
Prótein: 12,9 gr
Fita: 0,6 gr
Trefjar: 1,3 gr
Næring í kotasælublöndunni:
Kolvetni: 3,6 gr
Prótein: 12,8 gr
Fita: 4,4 gr
Trefjar: 0,2 gr
Ef þessar beyglur klárast ekki á um 10mínútum þá er líka geggjað að skella þeim í ristavélina daginn eftir.
Þú finnur skráninguna af beyglunni í myfitnesspal appinu með því að leita að: Helga Magga / Besta beyglan. Og Kotasælublönduna undir: Helga Magga / Kotasælublandan.
Smelltu hér til þess að sjá TikTok myndband af því hvernig ég bjó þennan rétt til.
Endilega láttu mig vita ef þú prufar þessa uppskrift með því að tagga mig á instagram @helgamagga
댓글