Ég held ég geti með góðu móti fullyrt að þetta séu bestu beyglur í heimi. Ótrúlega mjúkar og góðar og ekki verra hvað þær eru einfaldar með aðeins þremur innihaldsefnum. Ég var búin að sjá þessar beyglur úti um allt á Tiktok, en upphaflega uppskriftin er með grískri jógúrt. Ég varð að sjálfsögðu að prufa að skipta jógúrtinu út fyrir hreint skyr og það kom svona ljómandi vel út.
Með því lækkar fituinnihaldið og próteinið hækkar!
Uppskriftin er eftirfarandi:
230 gr hreint skyr (einn bolli)
140 gr hveiti (einn bolli)
10 gr lyftiduft (2 tsk)
Eggjahvíta eða egg til penslunar /15 gr
Öllu hrært saman, ef deigið er mjög klístrað er gott að bæta örlitlu hveiti við. Skiptið deiginu í fjóra parta og myndið beyglur, það er gott að hafa gatið í miðjunni 3-4cm því það minnkar við bökun. Setjið beyglurnar á bökunarpappír svo þær festist ekki við bökunarplötuna.
Penslið með eggjahvítu eða eggi.
Ég á yfirleitt alltaf til eggjahvítur á brúsa svo það er tilvalið að nota þær því það fara einungis um 15gr af eggjahvítu á 4 beyglur.
Ég notaði beyglukrydd sem ég keypti í Hagkaup en það er líka hægt að nota sesamfræ og smá sjávarsalt.
Bakið við 175gr í um 25 mín í blástursofni.
Næring í 100 gr:
Kolvetni: 34,3 gr
Prótein: 12,9 gr
Fita: 0,6 gr
Trefjar: 1,3 gr
Ef þessar beyglur klárast ekki á um 10mínútum þá er líka geggjað að skella þeim í ristavélina daginn eftir.
Ég prufaði að gera uppskriftina einnig með heilhveiti í stað hveitis en þannig verða beyglurnar trefjaríkari. Það kom vel út en við fjölskyldan vorum sammála um að hveiti beyglurnar voru betri.
Ég hvet ykkur til að prufa og dæma sjálf.
Þú finnur þessa skráningu í Myfitnesspal appinu með því að leita að: Helga Magga / Besta beyglan.
Endilega láttu mig vita ef þú prufar þessa uppskrift með því að tagga mig á instagram @helgamagga
Comments