top of page

Grænmetislasagna

Það er ekkert eins haustlegt og gott lasagna. Í þennan rétt notaði ég edamame- og mungbauna pastalengjur frá Explore cuisine sem fást í Hagkaup, Fjarðarkaup og Melabúðinni. Pastalengjurnar eru próteinríkar og því tilvalið að nota þær í grænmetislasagna til að auka próteinmagnið í réttinum. Í þennan rétt er sniðugt að nota það grænmeti sem til er í ísskápnum hverju sinni og ekkert mál að sleppa einhverju innihaldsefni eða bæta við uppskriftina. Uppskriftin er fyrir um 5-6 fullorðna.

Innihald

2-3 hvítlauksrif

120gr laukur (einn laukur)

1 matskeið olía

200gr gulrætur

160gr sveppir (6-8)

200gr spergilkál

240gr nýrnabaunir (1 dós)

1 lúka fersk basilika (eftir smekk)

1 mtsk grænmetiskraftur

200ml vatn

500gr pastasósa

130gr tómatpúrra

500gr kotasæla 150-200gr edamame- og mungbauna pastalengjur, fer eftir stærð á fati sem þú notar, (ég notaði 200gr). 120gr rifinn ostur Salt, pipar, hvítlaukskrydd, chilli krydd, oregano, timían um 1 tsk af hverju kryddi. Byrjið á því að skera lauk og hvítlauk smátt og steikja upp úr olíunni, blandið 1 mtsk af grænmetiskrafti út í 100 ml af vatni og hellið út á pönnuna. Gott er að vera búinn að skera grænmetið smátt niður og bæta því út á pönnuna, kryddið og steikið þar til grænmetið er farið að mýkjast. Eftir um 5 mínútur er pastasósunni bætt útá ásamt nýrnabaununum, tómat púrrunni og basilikunni og látið malla áfram við miðlungs hita í 5-10 mínútur. Kotasælunni er svo bætt út á pönnuna og slökkt undir.


Takið stórt eldfast mót og byrjið á að setja þunnt lag af grænmetissósunni í botninn, svo er helmingnum af pastalengjunum raðað ofaná, svo aftur grænmetissósa, svo annað lag af pastalengjum, þriðja lagið af grænmetissósunni og að lokum er osturinn settur ofaná, mér finnst gott að hafa 2 lög af pastalengjunum en það má alveg bæta við þriðja laginu en það fer sennilega eftir stærð á eldfasta mótinu sem þú notar.


Rétturinn er hitaður við 190gráður í 30 mínútur í blástursofni. Ef þú setur þennan rétt inn í myfitnesspal hjá þér sem uppskrift er mikilvægt að muna að vigta réttinn eftir að hann kemur út úr ofninum og muna að draga þyngdina á fatinu frá lokatölunni.

Næring í 100gr Kolvetni: 5,5gr Prótein: 8,6gr Fita: 2,7gr Trefjar: 3,5gr


Þessi færsla er unnin í samstarfi við heildverslunina Lindsay sem flytur inn Explore cuisine vörurnar.


Smelltu hér til þess að sjá TikTok myndband af því hvernig ég bjó salatið til.

Endilega láttu mig vita ef þú prófar þessa uppskrift með því að tagga mig á instagram @helgamagga




留言


bottom of page